Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti í dag ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 19. desember sl. en Samkeppniseftirlitið hafði komist að þeirri niðurstöðu að Hagar hafði markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á matvörumarkaði.

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins í dag.

Þar kemur fram að nefndin telji að rannsókn málsins hafi verið eðlileg og fellst á að Hagar hafi verið í markaðsráðandi stöðu. Jafnframt staðfestir nefndin framangreind brot Haga á samkeppnislögum. Þá tekur áfrýjunarnefndin fram að brot Haga hafi staðið í langan tíma og verið stórfellt.

Fram kemur að brot Haga á samkeppnislögum var talið felst í svonefndri undirverðlagningu sem félagið greip til á árunum 2005 og 2006. Í undirverðlagningu felst í aðalatriðum að markaðsráðandi fyrirtæki selur vörur undir kostnaðarverði.

„Getur slík óeðlileg verðlagning m.a. leitt til þess að minni keppinautar hrökklist út af markaðnum eða dragi úr verðsamkeppni við hið ráðandi fyrirtæki,“ segir á vef Samkeppnisstofnunar.

„Jafnvel þó neytendur njóti þess til skamms tíma að fá vöru eða þjónustu á mjög lágu verði leiðir röskun á samkeppni sem slík óeðlileg verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis veldur, þegar til lengri tíma er litið til fækkunar keppinauta, hærra verðs til neytenda, minni þjónustu eða gæða og til þess að valkostum neytenda fækkar.“

Sjá nánar á vef Samkeppniseftirlitsins.