Tripp Smith, framkvæmdastjóri hjá bandaríska fjárfestingasjóðnum Blackstone og meðstofnandi eignastýringarfyrirtækisins GSO Capital Partners, hefur keypt 10% hlut íslenska félagsins CB Holding ehf. í enska úrvalsdeildarknattspyrnufélaginu West Ham. Ekki er því lengur að finna íslenska kaupsýslumenn á hluthafalista West Ham. Financial Times greinir frá , en kaupverðið er ekki gefið upp.

CB Holding eignaðist 10% hlut í West Ham eftir að fjárfestingabankinn Straumur Burðarás fór á hausinn árið 2009, en CB Holdings var að meirihluta í eigu Straums. Straumur eignaðist félagið í júní árið 2009 upp í skuld Björgólfs Guðmundssonar við bankann, en hann hafði tekið láni hjá bankanum til að kaupa West Ham.

Stærstu hluthafar West Ham eru bresku frumkvöðlarnir David Sullivan og David Gold, sem keyptu 60% hlut Straums í félaginu árið 2010.

Mörg af stærstu félögum Englands eru í eigu bandarískra aðila, meðal annars Manchester United, Liverpool, Arsenal, Swansea City og Crystal Palace.