Laust fé í íslenskum krónum sem er í eigu útlendinga, svokallaðar aflandskrónur, eru um 22% af vergri landsframleiðslu. Við þessa tölu bætast svo krónueignir erlendu þrotabúanna. Þessari krónur eru stærsti þröskuldurinn í veginum fyrir því að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft, að því er Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í erindi sínu á ráðstefnunni Islande - la renaissance í París í gær.

Hann sagði að gjaldeyrisjöfnuður landsins gæti alls ekki staðið undir því að þessu fé væri sleppt öllu út í einu, einkum í ljósi þess að íslensk fyrirtæki og opinberir aðilar þurfa einnig að greiða af erlendum lánum sínum.

„Þess vegna verður að afskrifa þessar kröfur [gömlu bankanna í krónum] að verulegu leyti eða að tempra útflæði þeirra yfir mun lengri tíma. Því meira sem hægt er að afskrifa af þeim því fyrr er hægt að afnema höftin,“ sagði Már.

Hann segir að vandann tengdum öðrum aflandskrónum sé hægt að leysa með því annars vegar að sleppa þeim úr landi á afslætti, eða með því að binda þær í lengri skuldabréfum eða öðrum fjárfestingum. Verið sé að vinna í þessu, þótt sumum þyki hægt ganga. Að því loknu sé hægt að opna fyrir fjármagnsflæði og fá inn erlent fjármagn til að vega upp á móti því fé sem yfirgefur landið á þeim tímapunkti. Sagan sýnir að sögn Más þeir sem koma snemma inn við slíkar aðstæður geti hagnast vel.