Fons eignarhaldsfélag hefur selt hlut sinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe Europe AB og að sögn Pálma Haraldssonar, annars aðaleigenda Fons, hafa þeir lokið afskiptum sínum af félaginu. Pálmi sagðist aðspurður að Fons tapaði ekki á viðskiptunum. Kaupandi bréfanna er Cognation, hlutafélag að stærstum hluta í eigu Norðmannsins Christen Ager Hansen. Fons, sem stjórnað er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, var stærsti hluthafinn í FlyMe með rúmlega 20% eignarhlut.

Pálmi sagðist vera ánægður með að vera farinn út úr félaginu enda hefðu verið mikil átök um félagið að undanförnu. "Þetta er eins og gengur og gerist, menn voru ekki sammála um hvernig ætti að reka fyrirtækið. Ég sá framtíðina í því að nota FlyLa sem framleiðslufyrirtæki en þú veist hvernig þetta er, þeir eru Svíar og vilja nota sænska flugmenn og sænskar flugvélar. Afstaðan til FlyLa og Astraeus voru þau ágreiningsmál sem endanlega keyrðu þetta um þverbak. Að lokum var þetta einfalt, annað hvort keyptum við þá eða þeir okkur og þeir gerðu okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað. Þá seldum við. Þetta er önnur niðurstaða en lagt var af stað með en stundum er það bara þannig að það borgar sig að fara," sagði Pálmi sem staðfesti að mikil átök hefðu verið í stjórninni.

(meira í Viðskiptablaðinu í dag)