Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ennþá ráð fyrir hagvexti í heimshagkerfinu á þessu ári og því næsta, en segir að hann verði þó minni en AGS spáði fyrir um fyrir þremur mánuðum. Í spánni segir að enn megi gera ráð fyrir tveggja hraða hagkerfi í heiminum, þar sem nýmarkaðshagkerfi muni vaxa mun hraðar en hagkerfi vesturlanda.

Í spánni kallar AGS eftir aðgerðum til að ýta undir bjartsýni og hagvöxt í þróaðri hagkerfum. AGS spáir því nú að hagvöxtur í heiminum verði 3,5% í ár, sem er 0,1 prósentustigi minni vöxtur en sjóðurinn spáði í október. Þessi breyting kemur einkum til vegna þess að AGS gerir nú ráð fyrir minni hagvexti á evrusvæðinu en fyrri spá gerði ráð fyrir.

Christine Lagarde, yfirmaður AGS, mun flytja erindi á World Economic Forum ráðstefnunni í Davos í dag.