Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir að ef efnahagsástandið versni og útlánatöp aukist geti verið að breska ríkið þurfi að setja meira eigið fé inn í bankana. Sl. haust setti breska ríkið 37 milljarða punda, jafnvirði um 7700 milljarða króna, inn í helstu banka Bretlands. Þessu hefur verið fylgt eftir með margvíslegum ábyrgðum og aðstoð til helstu fjármálafyrirtækja, að því er segir í WSJ. Ríkið er nú t.a.m. með 70% hlut í Royal Bank of Scotland og 43% í Lloyds Banking Group.

Fulltrúi AGS í Bretlandi segir að gjaldeyris- og skuldabréfamarkaðir hafi hingað til leyft Bretlandi að njóta vafans þrátt fyrir versnandi stöðu ríkisfjármála. Mikilvægt sé að ríkið láti ekki reyna frekar á þanþol þessara markaða.

AGS telur að framleiðsla í Bretlandi dragist saman um 4,2% í ár og aukist um 0,2% á næsta ári.