Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur staðfest frétt Viðskiptablaðsins frá því um miðjan september þess efnis að hagstæðara Icesave- tilboð liggi á borðinu.

Sú staðfesting kemur fram í viðbótarupplýsingum sem bætt var við skýrslu AGS um þriðju endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Upplýsingunum var bætt inn 24. september, eða 11 dögum eftir að meginefni skýrslunnar er dagsett.

Þar segir að íslensk stjórnvöld hefðu tilkynnt sjóðnum að veruleg framþróun hafi orðið í átt að því að leysa Icesave-deiluna. Líkur á því að deilan færi fyrir dómstóla hefðu dregist verulega saman á sama tíma og líkur á að það tækist að semja á milli deiluaðila um málið bráðlega hefðu aukist.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, könnuðust hvorug við  inntak fréttar Viðskiptablaðsins í samtali við Ríkisútvarpið þegar hún birtist. Steingrímur sagðist ekki kannast við að nýtt og hagstæðara tilboð lægi fyrir.

Íslendingar fengu boð um að gera tilboð

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 16. september síðastliðinn að Bretar og Hollendingar hefðu boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram nýtt tilboð um lausn Icesave-deilunnar sem væri mun hagstæðara fyrir Íslendinga en síðasta tilboð landanna. Þar var einnig sagt frá því að fulltrúar landanna tveggja hefðu komið þeim skilaboðum til íslenskra stjórnvalda að verði slíkt tilboð lagt fram muni þau samþykkja það.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í tilboðinu hafi falist að Íslendingar myndu greiða 25 til 50% af þeirri eingreiðslu fyrri tilboð landanna hafði hljóðað upp á. Það var á þeim tíma kallað „loka og endanlegt tilboð“ og gerði ráð fyrir 110 milljarða króna eingreiðslu frá Íslendingum vegna tveggja ára vaxtahlés.

Um kúlulán yrði að ræða sem bæri ekki vexti fyrr en 1. janúar 2012. Eftir það myndu fastir vextir reiknast á höfuðstól lánsins líkt og hann væri hverju sinni. Þeir myndu verða 2,5 til 3,5% álag ofan á sex mánaða LIBOR-vexti og leggjast ofan á lánið á árunum 2012 til 2016. LIBOR-vextir eru núna rúmt 1%.

Eignir Landsbanka ganga upp í

Á þessum sex árum myndu eignir skilanefndar Landsbankans síðan ganga upp í greiðslu lánsins. Gjalddagi lánsins er 5. júní 2016. Eftir þann dag myndu eftirstöðvar höfuðstóls lánsins, auk vaxtagreiðslna, verða greiddar.

Skilanefnd Landsbankans getur ekki byrjað að greiða út kröfur fyrr en að bankinn er kominn úr greiðslustöðvun og samþykkt allra krafna er lokið. Á síðasta kröfuhafafundi bankans var tilkynnt að reiknað væri með 89% endurheimtum upp í forgangskröfur, sem eru að langmestu leyti vegna Icesave-reikninganna.