Fjárfestar reyndust áhugasamir um ríkisvíxlaútboð sem haldið var hjá Lánamálum ríkisins síðastliðinn föstudag. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka í dag. Alls 50 gild tilboð bárust í ríkisvíxlana sem boðnir voru út og nærri tveimur þriðju hlutum tilboðanna var tekið. Nafnvirði þeirra er um 20 milljarðar króna á 5,95% flötum vöxtum.

Greining Íslandsbanka telur ríkissjóð mega vel við una, en vaxtakjör í útboðinu voru þau bestu síðan í maí 2009 þegar vegnir meðalvextir voru 5,74%. Greiningin telur líklegt að stærstur hluti kaupenda séu erlendir aðilar. Í lok apríl nam eignarhlutdeild erlendra aðila í ríkisvíxlum ríflega 69%.