Þegar Ólafur Jóhann Ólafssonar, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner fjölmiðlasamsteypunnar, tók sæti sem stjórnarformaður Geysis Green á miðju síðasta ári var það í kjölfar kaupa hans á 2,6% hlut í félaginu. Öfugt við fjárfestanna í Wolfensohn & Co, sem ekki greiddu hlutaféð, gerði Ólafur Jóhann það. Nú hefur hann selt og farið úr stjórn.

Eftir því sem komist verður næst þá hafa aðrir í hluthafahópi Geysis keypt hlut Ólafs Jóhanns en ekki liggur fyrir hvernig því var skipt.

Helstu eigendur Geysis Green Energy eftir hlutafjáraukningu síðata haust voru: Atorka, (Renewable Energy Resources) 39,7%, Glacier Renewable Energy Fund (Glitnir o.fl.) 38,6%, VGK Invest (Mannvit) 8,8%, Wolfensohn & Co. 3,9%, Geodynamics 2,8% og Ólafur Jóhann Ólafsson, 2,6%.

Frá því var greint á sínum tíma að Ólafur og Adam leggðu samtals inn í félagið nýtt hlutafé að andvirði tveggja milljarða íslenskra króna, 800 milljónir frá Ólafi Jóhanni og 1.200 milljónir frá Wolfensohn & Co. Heildarupphæðin hefur hækkað upp í ríflega þrjá milljarða núna vegna gengisbreytingar ein og kom fram í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Eldri hluthafar ætluðu að leggja fram aðra tvo milljarða og einn milljarður var tilkominn með yfirtöku á dótturfélaginu Exorku International í Þýskalandi, en minnihlutaeigendum þar var greitt með hlutabréfum í Geysi að andvirði 1.200 milljóna króna.