Aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið gætu kostað utanríkisráðuneytið og þar með ríkissjóð um 800 milljónir króna á þremur árum. Stærsti hlutinn er þýðingarkostnaður eða um fimm til sex hundruð milljónir.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að þetta sé mat utanríkisráðuneytisins.

Í þessu mati er miðað við að aðildarviðræður taki þrjú ár og að kostnaður verði að jafnaði í kringum 260 milljónir á ári.

„Lunginn af þessum kostnaði felst í þýðingum," segir Árni Þór. „Það þarf að þýða þær reglur Evrópusambandsins yfir á íslensku sem ekki hafa verið innleiddar í gegnum EES-samninginn."

Það sé mikilvægur liður í því að koma upplýsingum á framfæri til almennings.

Reynt verði að hagræða á móti

Hann segir að fram hafi komið hjá fulltrúum utanríkisráðuneytisins að ráðuneytið myndi á móti - yrði farið í viðræður - reyna að mæta auknum kostnaði með hagræðingu. Til dæmis með því að flytja starfsfólk á milli verkefna.

„Auðvitað fylgir þessu verulegur kostnaður," segir Árni Þór. „Í ljósi efnahagsástandsins er þýðingarmikið að reyna að gæta ítrustu hagkvæmni."

Hann segir ekki óeðlilegt að miða við að viðræður taki þrjú ár. Verði tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður samþykkt gætu viðræður hafist á næsta ári,