Það var fyrir 45 árum, eða árið 1965, sem breski flugvélaframleiðandinn Hawker Siddeley kynnti ætlanir um að breyta herflutningaflugvélinni Whitworth Argosy í farþegavél. Vélin átti að vera hagkvæm í farþegaflugi og taka um 130 manns í sæti.

Siddeley kynnti vélina undir nafninu Airbus þar sem hún var fyrst og fremst hugsuð fyrir styttri leggi innan Evrópu en ekki til flugs yfir Atlantshafið eða austur til Asíu. Bretarnir voru þó fljótir að átta sig á því að það yrði erfitt að hefja framleiðslu á fjöldaframleiddri farþegaflugvél. Startkostnaðurinn yrði of mikill og óvíst hvenær framleiðslan færi að skila arði.

Upp frá þessu kviknaði þó sú hugmynd að margir af stærstu flugvélaframleiðendum Evrópu gætu sameinast um rekstur flugvélaframleiðslu með aðstoð ríkisstjórna í Evrópu. Þannig vildu þeir búa til flugvélarisa sem gæti keppt við bandaríska Boeingrisann.

Byrjað var að undirbúa framleiðslu Airbus-véla og var kostnaðurinn að mestu greiddur af opinberum aðilum. Úr varð að um mitt ár 1969 var Airbus Industrie til þegar franska félagið Aerospatiale, þýska félagið Deutsche Aerospace, breska félagið Hawker Siddeley og hollenska félagið Fokker sameinuðust um rekstur þess með aðstoð ríkisstjórna viðkomandi landa nema Bretlands sem dró sig út á síðustu stundu.    _____________________________

Nánar er fjallað um upphaf og stöðu Airbus á 40 ára afmælinu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .