Það er óhætt að segja að evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hafi borið sigur úr býtum í samkeppni við bandaríska keppinautinn Boeing á fyrsta degi flugsýningarinnar í París sem hófst í gær.

Hin árlega flugsýning í París (Paris air show) er ein stærsta flugsýning heims og samkvæmt venju keppast flugvélaframleiðendur um að tilkynna um stórar pantanir í vélar á meðan henni stendur. Alls taka um 2.200 fyrirtæki þátt í sýningunni en hana sækja u 350 þúsund manns. Mikil rigning setti þó svip sinn á sýninguna í gær og nokkrum blaðamannafundum var frestað vegna veðurs, þannig að næstu daga má eiga von á tilkynningum um stórar pantanir frá helstu flugvélaframleiðendum.

Airbus tilkynnti í gær um pantanir á vélum fyrir um 18,4 milljarða Bandaríkjadala (skv. listaverði) á meðan Boeing tilkynnti um pantanir að andvirði 6,1 milljarða dala.

Airbus byrjaði gærdaginn með látum þegar félagið tilkynnti að þýska risaflugfélagið Lufthansa hefði staðfest pöntun í 100 Airbus A320 vélar en Airbus og Lufthansa höfðu skrifað undir viljayfirlýsingu um pöntunina fyrr í vetur. Pöntun Lufthansa samanstendur af 35 A320neo vélum, 35 A321neo vélum og 30 A320 vélum með svokölluðum vængjabörðum (e. sharklets).

Stærsta pöntunin, eða öllu heldur sú verðmætasta, kom þó frá írska leigufyrirtækinu Doric Lease Corp. sem pantaði 20 Airbus A380 vélar en félagið hyggst gera út á leigu á slíkum vélum í framtíðinni. Listaverð pöntunarinnar er um átta milljarðar Bandaríkjadala. Þá skrifaði bandaríska fjárfestingafélagið ILFC (International Lease Finance Corporation) undir viljayfirlýsingu um kaup á 50 Airbus A320neo vélum en félagið á þegar pantaðar 100 slíkar vélar.

Stærsta pöntun Boeing kom frá Qatar Airways sem staðfesti kaup á níu Boeing 777-300ER vélum en félagið er nú þegar með rúmlega 20 slíkar vélar í notkun.

Flestir bíða eftir sölu á A350

Þeir sem fylgjast með flugheiminum bíða þó spenntir eftir því að sjá hvort að tilkynnt verði um stórar pantanir í nýjustu vél Airbus, A350 vélina sem flaug sitt fyrsta flug sl. föstudag. Nú þegar hafa rúmlega 600 vélar verið pantaðar. Hins vegar hefur lítið verið tilkynnt um pantanir síðustu vikur og er því gert ráð fyrir því að Airbus hafi beðið eftir því að tilkynna um pantanir á flugsýningunni. Ekki liggur enn fyrir hvort að A350 vélinni verði flogið á flugsýningunni sjálfri.

Þá verður jafnframt forvitnilegt að sjá hvort að tilkynnt verði um nýjar pantanir í Boeing 787 Dreamliner vélar en sem kunnugt er hefur vélin átt í miklum vandræðum síðustu mánuði eftir að hún var kyrrsett um allan heim í janúar sl. vegna vandræða með rafmagnskerfi hennar.