Airbus hóf í dag byggingu á 74.000 fermetra samsetningarverksmiðju í Toulous í Frakklandi þar sem endanleg smíði á hinni nýju A350 XWB breiðþotu fer fram.

Nýja þotan er svar Airbus við við Boeing 777 og Boeing 787 Dreamliner og á að vera sérlega sparneytin og hagkvæm í rekstri. Fyrsta vélin á að fara í notkun árið 2013.

Áætlað er að nýja samsetningarverksmiðjan kosti 140 milljónir evra og mun verða vinnustaður 1.000 starfsmanna. Verksmiðjan mun verða mjög fullkomin og á að verða hagkvæmasta samsetningaverksmiðja Airbus og á að stytta framleiðslutíma um 30%. .

Tom Enders, forstjóri Airbus, segir á vefsíðu fyrirtækisins að A350 XWB vélin muni verða leiðandi í flugvélaiðnaðinum hvað hagkvæmni varðar.

Gert er ráð fyrir þremur línum af A350 vélinni. Þær eru A350-800 sem mun sitja um 270 farþega, A359-900 sem mun sitja um 314 farþega og A350-1000 sem mun sitja allt að 350 farþega.

Nú þegar hafa 483 vélar verið pantaðar af A350 línunni.