Ákvörðun Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra um að styðja ekki fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar hefur kallað á hörð viðbrögð nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Jafngildir ákvörðun um að afhenda afsagnarbréf

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ákvörðun hennar jafngilda afsögn. Á Facebook síðu sinni sagði hann:

„Ráðherra sem ákveður að styðja ekki ríkisstjórnarmál, hefur tekið ákvörðun um að afhenda forsætisráðherra afsagnarbréf. Eygló Harðardóttir hlýtur að óska eftir fundi með forsætisráðherra áður en reglubundinn ríkisstjórnarfundur hefst á morgun (í dag).“

Ekki nægilega hugað að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum

Eygló gaf þá skýringu á ákvörðun sinni um að sitja hjá við atkvæðagreiðslu þingsályktunartillanga um fjármálaáætlun 2017-21 og fjármálastefnu fyrir sama tímabil að í fjármálaáætlun væri ekki nægilega hugað að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum. Styddi hún því fjármálaáætlunina, sem næði til næsta kjörtímabils, ekki fyrir vikið.

Hún hefði hins vegar unnið á kjörtímabilinu samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna og lægi ekkert fyrir um áherslur mögulegs samstarfs á því. Þetta kemur fram á mbl.is .

Uppákoman veldur kjánahrolli

Guðlaugur Þór Þórðarson varaþingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis segir það vægast sagt undarlegt, í besta falli, að ráðherra samþykki ekki ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem búið er að samþykkja í ríkisstjórn. Segir hann uppákomuna valda sér kjánahrolli.

„Þetta snýst ekki um ríkisstjórnina heldur viðkomandi ráðherra. Ef ráðherra er ósáttur við eitthvert mál og það gengur þannig fram af honum að hann telur sig ekki geta stutt viðkomandi ríkisstjórn þá segir hann af sér, Ef ráðherra hefur verið ósáttur við þetta mál þá hefði hann væntanlega gert það þegar þetta var rætt í ríkisstjórn og hann sá að hann kæmi ekki sínum málum fram “ segir Guðlaugur í samtali við RÚV .

„Ég get ekki ímyndað mér að við gætum séð svona stöðu koma upp í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ef allir ráðherrar gengju fram með þessum hætti væri fullkomið stjórnleysi í landinu.“

Ekki boðlegt ráðherra

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, lýsti því yfir að henni fyndist að Eygló ætti að segja af sér, það væri ekki boðlegt ráðherra í ríkisstjórn að sitja hjá í atkvæðagreiðslu í Þinginu.

„Mér finnst að ráðherra í ríkisstjórn sem ekki getur stutt við ríkisstjórnarmál eins og þetta, eigi að standa með sjálfum sér alla leið og fara, segja af sér," segir Ragnheiður