Niðurstaða í Al Thani-málinu gæti legið fyrir eftir eitt og hálft ár, að mati fjárfestisins Ólafs Ólafssonar, eins sakborninga í málinu. Hann gagnrýndi vinnubrögð saksóknara gegn þeim fjórum sem ákærðir eru í málinu í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í morgun eftir að málinu var frestað um ótilgreindan tíma. Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs, sagði sig frá málinu í vikunni og var honum skipaður nýr verjandi. Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, sagði sig sömuleiðis frá málinu. Ólafur sagði málið hafa dregist alltof lengi. Það sé sér alls ekki til hagsbóta.

Ólafur sagði m.a. vinnubrögð embættis sérstaks saksóknara hafa léleg og nefndi að sími nafna hans á Akureyri hafi verið hleraður lengi áður en upp komst að rangur maður hafi verið í sigtinu.

„Þetta eiga að vera færustu menn landsins í rannsóknum og skilja það ekki að þeir voru að tala við mann á Akureyri þegar þeir voru að rannsaka svona mál. Þetta er vísbending um að málið er afskaplega illa unnið,“ sagði Ólafur.

Ólafur sagði rannsókn málsins hafa tekið þrjú ár og enn ekki öll gögn komin fram. Hann taldi aðalmeðferð tefjast í hálft ár. Þá sagði hann rangt að reynt hafi verið að fresta málinu.

„Það eru ekki mínir hagsmunir. Það er ekki verið að draga málið af hálfu okkar. Ég vil þetta mál frá sem fyrst. Ég vil ekki sitja undir þessari vitleysu endalaust.