Álag á skuldatryggingar íslenska ríkisins er nú í kringum 8-10 punktar, en fór hæst í 20 punkta í kjölfar umróts á íslenskum fjármálamarkaði, og segja sérfræðingar að álagið sé "furðulega mikið" fyrir ríki með lánshæfismatið Aaa hjá Moody's Investors Service og AA- hjá Standard & Poor's og Fitch Ratings.

Áður en neikvæð umfjöllun erlendra greiningaraðila og fjölmiðla um íslensk fjármálafyrirtæki og hagkerfið náði hápunkti í mars var álagið á bilinu 0-0,5 punktar en bæði S&P og Fitch hafa breytt lánshorfum íslenska ríkisins í neikvæðar úr stöðugum.

Sérfræðingar benda þó á að góð afkoma ríkisjóðs á síðasta ári ætti að vega upp á móti áhættumati á lánshæfi vegna ójafnvægis í hagkerfinu, en 113 milljarða afgangur var af rekstri ríkissjóðs árið 2005 samanborið við tvo milljarða árið 2004. Fjármálaráðuneytið segir helstu ástæðurnar vera sala Landssíma Íslands fyrir 66,7 milljarða og aðhald í útgjöldum. Sérfræðingar segja hagnað af rekstri ríkissjóðs slíkan að ólíklegt sé að hann leiti fjármagns á erlendan fjármálamarkað á næstunni.

Álag á skuldatryggingar bankanna hefur einnig verið óvenjulega hátt, segja sérfræðingar,en hefur verið að dragast saman þrátt fyrir að almennt fari álagið hækkandi á markaði. Álag á skuldatryggingar Kaupþings er í kringum 72 punktar, álagið á Landsbankanum er í kringum 63 punktar og álagið á Glitnir er 53 punktar, samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum.

Glitnir hefur lokið fjármögnun fyrir árið 2007 og Landsbankinn hefur einnig lokið endurfjármögnun að mestu, en báðir bankarnir tilkynntu um skuldabréfaútgáfu nýlega. Búist er við að endurfjármögnun Kaupþings verði einnig lokið á næstunni.