Aðeins sjö bankar af 91 féllu á álagsprófi evrópskra fjármálaeftirlitsstofnana, en nær er að segja að prófið sjálft hafi fallið á prófinu. Bankakreppan er ekki afstaðin en tíminn af æ skornari skammti.

Álagspróf evrópskra banka, sem gefið var út um liðna helgi, átti að slá á áhyggjur manna af bankakerfi Evrópusambandsins (ESB), en þegar upp er staðið virðist það litlu hafa breytt. Sjálft álagsprófið var enda rækilega gagnrýnt meðan það stóð yfir og nú þegar niðurstöðurnar liggja fyrir hafa þær síst dalað. Fyrst og síðast horfa menn til þess að af 91 evrópskum banka, skuli aðeins sjö þeirra hafa talist fallið á álagsprófinu, þannig að þeir þurfi úr að bæta. Það þykir mönnum með nokkrum ólíkindum.

Bankakreppan er ekki liðin hjá, millibankamarkaður er enn frosinn, útlán banka eru enn í lágmarki og margir óttast að önnur efnahagslægð – jafnvel kreppa – vofi yfir. Markmið álagsprófsins var að auka traust á millibankamarkaði og koma í veg fyrir nýja lánsfjárkreppu, en enn sem komið er bendir fátt til þess að það lukkist. Álagsprófið var þó ekki fullkomlega til einskis nýtt. Nú hafa menn fleiri tölur að vinna úr en áður og geta lagt þær til grundvallar öðrum útreikningum á stöðu evrópskra banka, þar sem meira raunsæis er gætt.

Þá hafa niðurstöðurnar orðið til þess að menn átta sig betur á stöðu bankakerfa einstakra landa ESB og það hefur endurspeglast í hlutabréfaverði og skuldatryggingaálagi evrópskra banka í vikunni. Öfugt við það sem sumir bjuggust við hefur traust á spænskum bönkum aukist, en ríkari efasemda gætir um þýska banka en áður. Ástæðan er helst sú að þýskir bankar hafa verið tregir til þess að láta uppi hversu mikið af ríkisskuldum af evrusvæðinu þeir hafa í fórum sínum.