Rio Tinto Alcan (Alcan á Íslandi hf.) og Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hafa gert mér sér samning um stuðning við frumkvöðlakeppni Innovit, Gulleggið 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcan á Íslandi.

Um er að ræða keppni meðal háskólanemenda í gerð viðskiptaáætlana og er tilhögun hennar samkvæmt fyrirmynd frá MIT háskóla í Bandaríkjunum.

Keppnin var haldin í fyrsta sinn í upphafi þessa árs. Þá bárust um 100 gildar viðskiptaáætlanir og stóðu að þeim um 300 einstaklingar. Þátttökurétt í keppninni hafa allir nemendur sem skráðir eru til náms við íslenska háskóla, allir Íslendingar sem stunda háskólanám erlendis auk allra þeirra sem útskrifast hafa með háskólapróf frá íslenskum háskólum undanfarin fimm ár.

Í tilkynningunni kemur fram að stuðningur Alcan á Íslandi felst í 500.000 króna fjárframlagi auk þess sem samstarf verður haft við fyrirtækið – eins og aðra styrktaraðila keppninnar – um aðkomu að námskeiðshaldi sem er hluti af keppnisferlinu.

„Við viljum með þessum stuðningi leggja enn meira af mörkum til að efla þá gróskumiklu nýsköpun sem er svo mikilvæg fyrir áframhaldandi uppbyggingu íslensks atvinnulífs,” segir Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Alcan á Íslandi í tilkynningunni.

„Það gleymist stundum að upp úr rekstri álversins í Straumsvík hefur sprottið margvísleg nýsköpun. Má í því sambandi nefna vélsmiðjuna Stími, sem hannað hefur margvíslegan og hátæknilegan búnað í álverið og selur hann nú í álver í öðrum löndum. Með þessu framtaki viljum við hlúa enn frekar að því hugviti sem í Íslendingum býr og freista þess að veita því farsælan farveg.”

Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir ungt, kraftmikið og metnaðarfullt fólk með góðar viðskiptahugmyndir. Auk frumkvöðlakeppninnar veitir félagið sérhæfða ráðgjöf og fræðslu um stofnun og rekstur sprotafyrirtækja. Innovit er í meirihlutaeigu hugmyndasmiða félagsins, sem er ungt fólk á aldrinum 25 til 30 ára, en auk þeirra eiga Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hlut í félaginu.