Alcan á Íslandi hefur fest kaup á 10.350 fermetrum lands við Straumsvík, sem áður var í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Kaupsamningur þessa efnis verður undirritaður í Straumsvík kl. 14 í dag og er umsamið kaupverð 34 milljónir króna. Um er að ræða land sem liggur að núverandi athafnasvæði Alcan og er aðliggjandi hafnarsvæðinu í Straumvík.

Innan landsins er lóð þar sem nýverið voru byggðar aðalskrifstofur Alcan en ekki er ráðgert að byggt verði frekar á landinu, heldur verði það nýtt sem útivistar- og athafnasvæði fyrirtækisins.

Stefna Alcan er að eiga og hafa yfirráðarétt yfir öllu því landi þar sem starfsemi þess fer fram. Með samningnum sem undirritaður verður í dag er tryggt, að það gildi um svæðið kringum nýjar höfuðstöðvar í Straumsvík og ekki verði þar starfsemi óskyld rekstri Alcan.