Alcoa Fjarðaál bauð íbúum Fjarðabyggðar og nágrannasveitarfélaga á kynningarfund í álverinu í Reyðarfirði í gær.  Rúmlega 30 manns mættu á fundinn en það er árlegur viðburður hjá Fjarðaáli  að halda fund, þar sem fyrirtækið kynnir starfsemi sína og gefur íbúum tækifæri til að spyrja nánar út í hana.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Alcoa Fjarðaráli

„Á fundinum kom fram að magn útblástursefna frá álverinu í Reyðafirði það sem af er árinu, er undir þeim mörkum sem sett eru í starfsleyfi fyrirtækisins. Þá var greint frá því að allur framleiðsluúrgangur frá álverinu fer til útlanda til endurvinnslu og einungis 0,4% af úrganginum frá álverinu fer til urðunar.

Einnig kom fram hversu mikilvæg starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands er fyrir Fjarðaál og að niðurskurður þar muni hafa mikil áhrif á öryggi og búsetuskilyrði starfsfólks og verktaka sem starfa hjá fyrirtækinu.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, greindi frá því helsta sem er á döfinni hjá fyrirtækinu, svo sem byggingu 4000 fermetra kersmiðju við álverið, sem mun skapa yfir hundrað störf á framkvæmdatíma og tugi framtíðarstarfa.  Hann fjallaði einnig um nýlegt álit Skipulagsstofnunar um álver, raforkuver og flutningslínur á Bakka og sagði að mörgum spurningum væri enn ósvarað varðandi verkefnið m.a. varðandi magn orku á svæðinu og verð hennar. Tómas fór einnig yfir helstu atriðin í skýrslu Háskólans á Akureyri um áhrif Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðarfirði á samfélagið á Austurlandi á árunum 2002 – 2009.  Samkvæmt skýrslunni fjölgaði fólki á Mið-Austurlandi um 22% á þessu tímabili, en á öllu Austurlandi um rúmlega 5%.  Þá benti Tómas á að í skýrslunni kæmi fram að 83 milljarðar króna hefðu runnið inn í íslenska hagkerfið á meðan á framkvæmdunum stóð.  Á sama tíma hefði fjárfesting atvinnuvega á Íslandi  numið um 1500 milljörðum króna og einkaneysla aukist um 40%. Þannig hefðu framkvæmdirnar ekki verið meginorsök þenslu fyrir hrun.

Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls, lýsti þýðingu álversins fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu og  sagði að yfir 1000 störf hefðu orðið til þar, íbúum hefði fjölgað og þjónusta aukist. Launafl varð til við  sameiningu nokkurra austfirskra fyrirtækja til að þjónusta álverið og sagði Magnús að án álversins hefði stöðnun ríkt á svæðinu, en uppbyggingunni fylgdu bæði jákvæð og neikvæð áhrif,“ segir í tilkynningu