Orkukostnaður er ein helsta áskorunin sem álrisinn Alcoa stendur frammi fyrir í dag. "Orkukostnaður fer hratt hækkandi," segir Bernt Reitan yfirmaður hjá Alcoa við Financial Times. Í mörgum tilfellum eru samningar Alcoa við orkusala lausir, sem kemur fyrirtækinu illa vegna hækkandi orkuverðs.

Reitan segir að hærra orkuverð hafi kostað Alcoa 374 milljónir dollara það sem af er þessa árs. Þesi tala hækkar sé einnig tekið tillit til hækkandi hráefniskostnaðar eins og á báxíti. "Það er mikill kostnaðarþrýstingur á álbræðslur í heiminum," segir hann.

Alcoa hefur uppi tvær áætlanir til að komast hjá áhrifum hækkandi kostnaðar. "Annars vegar vinnum við hörðum höndum að því að lengja líftíma þeirra 27 bræðsla sem við starfrækjum í dag. Það mun reynast mikil áskorun." Hins vegar stendur fyrirtækið í framkvæmdum á byggingu nýrra bræðsla í þeim heimshlutum þar sem orkuverðið er lægra.

Alcoa hefur í hyggju byggingu á bræðslum á Íslandi, Trinidad, Kína og Brunei. Þessar bræðslur munu taka nokkur ár í byggingu og mun staðsetning þeirra hafa töluverð áhrif á landakort Alcoa. "Eftir tíu ár mun 50% af framleiðslugetu Alcoa vera utan Evrópu og Norður-Ameríku."

Verkefnið á Íslandi er komið lengst á veg en gert er ráð fyrir að Fjarðaál verði tekið í notkun í apríl 2007. Reitan segir það verða mjög nútímalegt og hreinasta álver í heiminum.

Reitan segir að jarðvarmaorka, sem sé næg á Íslandi, sé frábært tækifæri og bætir við að verið geti að Alcoa byggi annað álver á Íslandi eftir að Fjarðaál hefur tekið til starfa.

Orkuverð á Spáni og Ítalíu, þar sem Alcoa rekur fimm bræðslur, eru "í lagi eins og staðan er í dag". Í Bandaríkjunum hefur bræðslum -- bæði Alcoa og annarra álfyrirtækja -- með framleiðslugetu upp á 2 milljónir tonna verið lokað á síðustu 10 árum. Alcoa reynir nú að ná fram hagstæðum orkusamningum til að tryggja framtíð þeirra 10 bræðsla sem fyrirtækið á í Bandaríkjunum.