Nýskráningar fyrirtækja í Bandaríkjunum jukust um 7,87% á milli ára árið 2010. Vöxturinn hefur aldrei verið jafn lítill og þykir vísbending um þá erfiðleika sem steðja að bandarísku efnahagslífi. Til samanburðar nam ársvöxturinn 8,1% árið 2009.

Gögnin eru byggð á könnun bandarísku hagstofunnar og félagasamtakanna Ewing Marion Kauffman Foundation, sem sérhæfir sig í frumkvöðlafræðum.

Reuters-fréttastofan fjallar um málið í dag og rifjar upp að toppinum hafi verið náð árið 1987 þegar nýskráningar fyrirtækja hafi aukist um 13% á milli ára.

Bent er á í umfjölluninni að samhengi er á milli nýskráninga fyrirtækja og atvinnusköpunar. Samdrátturinn frá kreppu skýri að einhverju leyti hvers vegna efnahagsbatinn í Bandaríkjunum er hægur.