Árið 2016 sem nú er liðið var algjört metár í umferðinni á Hringveginum, segir í frétt Vegagerðarinnar , þar sem teknar eru saman tölur yfir aukningu á umferð milli ára. Árið 2016 jókst bílaumferð um 13 prósentustig sem er að sögn Vegagerðarinnar „gríðarleg aukning á einu ári.“ Aukninguna rekur Vegagerðin að mestu leyti til aukinnar vetrarferðamennsku.

Þá er vakið athygli á því að aukningin sé nálega tvöföld á við aukninguna milli áranna 2006 og 2007, sem var 6,8 prósentustig. Aldrei fleiri bílar hafa farið um mælipunkta Vegagerðarinnar á Hringveginum.

Mest aukning á Austurlandi

Aukningin milli ára var mest á Austurlandi eða um tæplega 52%, hins vegar var aukningin á umferð minnst, um og í grennd við höfuðborgarsvæðið, en þar var hún um 18%.

21% aukning var í desember 2016 ef tekið er mið af sama mánuði fyrir árinu áður. Þetta er sömuleiðis mesta aukning á umferð milli desembermánaða eftir að mælingar hófust.

Fylgni umferðar við hagvöxt og aukningu ferðamanna

Mest jókst umferðin á mánudögum eða um 15,3% en minnst var aukningin hins vegar á föstudögum eða 10,1%. Mestur umferðarþungi var þó á föstudögum en minnst á þriðjudögum.

Að lokum bendir Vegagerðin á fylgni umferðar við hagvöxt, aukningu ferðamanna og góða færð á vegum yfir vetrarmánuði. „Þetta kunna að vera þrjár meginástæður fyrir þessari miklu aukningu á síðasta ári.  Það verður því afar fróðlegt að fylgjast með þróuninni á þessu ári og sjá hvort þessi mikla aukning haldi áfram eða hvort það hægi á henni,“ segir að lokum í samantekt stofnunarinnar.