Rolls-Royce bílaframleiðandinn hefur aldrei selt fleiri bíla á einu ári en hann gerði í fyrra, að því er segir í frétt Financial Times. Er það einkum stóraukin eftirspurn í Asíu sem veldur aukningunni, en tekjur hafa einnig aukist mjög mikið vegna þess að meira selst af aukabúnaði í bíla en áður.

Í fyrra seldi Rolls-Royce 3.538 bíla, sem er 31% aukning frá árinu á undan, þegar 2.711 bílar seldust. Á öllum sölusvæðum jókst salan milli ára, en aukningin var mest í Asíu, þar sem hún jókst um ein 47%. Þá jókst hún um 31% í Mið-Austurlöndum og um 17% í N-Ameríku.

Fyrra sölumet fyrirtækisins var sett árið 1978 þegar 3.347 bílar voru seldir.