Alfesca hefur samið um kaup á Le Traiteur Grec (LTG) sem er stærsta fyrirtæki í Frakklandi á sviði smurrétta úr grænmeti. Kaupverðið nemur 19,7 milljónum evra miðað við skuldlaust félag að því er kemur fram í frétt félagsins.


Kaupunum, sem háð eru vissum skilyrðum, verður lokið með greiðslu reiðufjár en áætlað er að þeim verði lokið eftir endurfjármögnun samstæðunnar um miðjan júní. Fé til kaupanna fæst við endurfjármögnunina.


Nettósala LTG árið 2006 nam 12 milljónum evra og hefur hún aukist um meira en 10% á ári síðastliðin þrjú ár. Í árslok 2006 námu hreinar eignir LTG 6,3 milljónum evra og peningalegar skuldir í efnahagsreikningi voru engar.
Le Traiteur Grec hefur allt frá stofnun árið 1987 öðlast leiðandi stöðu á markað fyrir grænmetissmurrétti í Frakklandi. Helstu markaðsvörur LTG eru grænmetissmurréttir (20% markaðshlutdeild); blini eða hveitipönnukökur (3% markaðshlutdeild) og ídýfur (3% markaðshlutdeild). LTG selur vörur sínar til verslanakeðja og stórmarkaða í Frakklandi og eingöngu undir eigin vörumerkjum.


Mikil samlegðaráhrif fást af starfsemi LTG og Blini en þessi dótturfélög Alfesca veita félaginu leiðandi stöðu í sölu grænmetissmurrétta. Vaxtarmöguleikar eru miklir og munu efla framleiðslu samstæðunnar á blini og ídýfum sem er ein af fjórum meginstoðum starfseminnar. Búist er við auknum tekjum af sölunni strax á fyrsta ári frá kaupunum.
Xavier Govare, forstjóri Alfesca, segir kaupin á Le Traiteur Grec falla mjög vel að rekstri Alfesca. ?Sterk staða Le Traiteur Grec á markaði fyrir grænmetissmurrétti mun styrkja og tryggja stöðu á markaði sem er ört vaxandi. Samlegðaráhrif verða mikil við blini- og smurréttaframleiðslu okkar sem mun styrkja reksturinn. Auk þess munum við efla þennan þátt rekstrarins enn frekar með því að einbeita okkur að frekari vöruþróun og nýbreytni.?
Frekari upplýsingar um kaupin verða veittar þegar rekstrarniðurstöður Alfesca á þriðja ársfjórðungi verða kynntar.