Alfesca hf. gekk í dag frá sölu á fasteign félagsins að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Nettó söluverð er um 7 milljónir evra eða um 640 milljónir króna. Afhending eignarinnar hefur þegar farið fram og kaupverð er að fullu greitt. Bókfærður hagnaður vegna sölunnar er um 1,1 milljón evra eða um 100 milljónir króna sem mun tekjufærast á yfirstandandi ársfjórðungi segir í frétt félagsins.

Húsnæðið var á sínum tíma hannað og byggt utan um saltfiskstarfsemi félagins á Íslandi og var því orðið óhentugt fyrir núverandi starfsemi Alfesca. Bæði var húsnæðið orðið of stórt og eins eru í því stór birgðageymsla og vinnslusalur sem ekki nýttust félaginu segir í fréttinni.

Alfesca hyggst nota söluandvirðið til frekari niðurgreiðslu á langtímalánum félagsins. Félagið gerir ekki ráð fyrir að þurfa að endurfjárfesta í nýjum höfuðstöðvum heldur mun félagið leigja húsnæði undir nýjar höfuðstöðvar sem væntanlega verða í Reykjavík. Unnið er að samningum í þeim efnum.