Boð Ríkissjóðs til að leysa til sín skuldabréf sem gefin voru út í evrum skýrist af nokkrum ástæðum. Skuldabréfin sem um ræðir eru í tveimur flokkum og þeir með gjalddaga árin 2011 og 2012 og er ríkissjóður tilbúinn að kaupa bréf fyrir allt að 300 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 47 milljarða króna.

Eigendur skuldabréfanna hafa nú þann kost að selja bréf sín til ríkissjóðs með afslætti af nafnvirði þeirra. Fjárfestar fá því ekki jafn mikið og þeir annars myndu fá á gjalddaga bréfanna. Álitlegur kostur getur verið fyrir fjárfesta að selja bréfin nú, m.a. vegna kerfisáhættu hér á landi. Tiltrú á íslenska hagkerfið endurspeglast því að einhverju leyti í sölu þessara bréfa.

Boð ríkissjóðs í dag gefur nokkuð sterk skilaboð út á markaðinn. Það getur haft áhrif til góðs, til að mynda á CDS álag á íslenska ríkið sem þykir ekki hafa lækkað nóg.