CAOZ hf., ásamt meðframleiðendum sínum Ulysses Film í Þýskalandi og Magma Productions á Írlandi undirrituðu á kvikmyndahátíðinni í Cannes, sem er nýafstaðin, alþjóðlegan dreifingarsamning við þýska dreifingarfyrirtækið Telepool fyrir tölvuteiknimyndina Þór – Í heljargreipum.

Í tilkynningu kemur fram að samningurinn tekur til dreifingar og sölu myndarinnar inn á markaði um allan heim, utan Norðurlandanna. Stefnt er að því að kvikmyndin verði frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar 2011 og hefur þegar verið gengið frá sölusamningum til 10 landa um sýningarrétt. Samningarnir taka til allrar innlendrar dreifingar, þ.m.t. sýningum í kvikmyndahúsum og dreifingu á myndbandamarkaði.

Telepool er þýskt dreifingarfyrirtæki sem hefur annast dreifingu á kvikmyndum í yfir 40 ár. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í München í Þýskalandi og með skrifstofur m.a. í Los Angeles.

Í tilkynningu segir að Telepool kynnir Þór núna á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrsta skiptið í sínum söluskrám og væntir þess að mikil eftirspurn verði eftir myndinni. Þessi kynning markaði upphaf markaðssetningar myndarinnar á alheimsvísu. Fyrstu sölur á vegum Telepool hafa þegar verið staðfestar og í nokkrum löndum kom til uppboðs á sýningarréttinum milli stærstu dreifingaraðilana. Má m.a. nefna að í Tyrklandi bitust dreifingarfyrirtæki um réttinn og endaði hann hjá stærsta kvikmyndadreifingarfyrirtæki Tyrklands sem m.a. dreifir mörgum af stærstu kvikmyndum bandarísku kvikmyndaveranna. Síðasta teiknimynd sem Telepool dreifði hefur verið seld til yfir 114 landa og hefur fyrirtækið væntingar til að Þór ná allavega viðlíka dreifingu.

Tölvuteiknimyndin hefur verið í undirbúningi, þróun og framleiðslu hjá CAOZ í nokkur ár og þegar hún verður frumsýnd þá lýkur rúmlega 7 ára ferli sem verkefnið hefur tekið. Framleiðslukostnaður á kvikmyndinni er um 1,2 milljarðar króna sem gerir hana að dýrustu kvikmynd sem hér hefur verið framleidd. Kvikmyndin er unnin m.a. með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og Iðnaðarráðuneytinu. Sena mun annast dreifingu myndarinnar á Íslandi.

Þór – Í heljargreipum byggir á Norrænu goðafræðinni og segir frá því hvernig Þór og hamarinn hans Mjölnir verða að því öfluga tvíeyki sem þeir reynast. Persónur myndarinnar og umhverfi eru byggðar á lýsingum í Snorra Eddu en sagan er skrifuð af Friðriki Erlingssyni sem jafnframt skrifar handrit myndarinnar. Leikstjórn er í höndum þeirra Óskars Jónassonar og Gunnars Karlssonar, sem einnig hefur hannað alla myndræna umgjörð myndarinnar og persónur sem koma fram í henni. Framleiðendur myndarinnar eru Hilmar Sigurðsson og Arnar Þórisson.