Breska tískukeðjan All Saints mun nú vera í söluferli að frumkvæði skilanefnda Kaupþings og Glitnis, sem báðar eiga hlut í fyrirtækinu. Talið er að um 27 milljarðar króna geti fengist fyrir félagið. Morgunblaðið greinir frá þessu og vísar í fréttir breskra fjölmiðla í gær.

Eins og fram kom á vb.is í október sl. var All Saints að hluta til í eigu Haga og féll sá hlutur undir skilanefnd Kaupþings þegar Hagar voru teknir yfir. Þá átti Baugur hlut í félaginu sem skilanefndirnar leystu til sín. Stærsti hluthafi All Saints er breski kaupsýslumaðurinn Kevin Stanford, sem var náinn viðskiptafélagi Baugs og FL Group.

Stanford tapaði í janúar sl. máli gegn skilanefnd Kaupþings og var dæmdur til að greiða henni 240 milljónir króna en sú skuld er  dropi í hafið miðað við þær 250 milljónir punda sem hann er talinn skulda bankanum.