Dómur er fallinn í Al-Thani málinu . Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í fimm og hálfs árs fangelsi. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi, Ólafur Ólafsson fjárfestir í fjögurra og hálfs árs fangelsi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur einnig verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Refsing yfir Hreiðari Má er óbreytt frá héraðsdómi. Sigurður Einarsson fær vægari dóm, fjöugurra ára fangelsi í stað fimm. Dómur yfir Ólafi Ólafssyni var þyngdur, úr þremur árum í fjögur og hálft ár. Dómur yfir Magnúsi Guðmundssyni er þyngdur, úr þremur og hálfu ári í fjögur og hálft ár.

Al-Thani málið er eitt stærsta efnahagsbrotamál sem komið hefur upp hérlendis. Málið var í rannsókn í ríflega tvö ár og á einum tímapunkti var Sigurður Einarsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, eftirlýstur af Interpol eftir að hafa ekki sinnt fyrirmælum sérstaks saksóknara um að gefa skýrslu á Íslandi.

Málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa Mohammad Bin Khalifa Al-Thani í Kaupþingi þann 22. september árið 2008. Þá keypti félag hans 5,01% í bankanum og borgaði 25,7 milljarða króna fyrir hann með láni frá bankanum.