Nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabankans voru þeirrar skoðunar að núverandi vaxtastig virtist um það bil við hæfi á komandi mánuðum í ljósi efnahagshorfa, og hugsanlega óhagstæðrar alþjóðlegrar efnahagsþróunar. Tillaga seðlabankastjóra um að halda stýrivöxtum óbreyttum var samþykkt samhljóða á síðasta stýrivaxtafundi nefndarinnar.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem er birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands í dag, tveimur vikum eftir að hún var tilkynnt.

„Væri horft lengra fram á veginn yrði hins vegar að mati nefndarmanna nauðsynlegt að draga úr núverandi slaka peningastefnunnar eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og dregur úr slaka í þjóðarbúskapnum. Að hve miklu leyti þessi aðlögun ætti sér stað með hærri nafnvöxtum færi  þó  eftir framvindu verðbólgunnar,“ segir í fundargerðinni.