*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 3. júní 2020 17:25

Allir sammála um lækkun stýrivaxta

Fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands.
Gígja Einarsdóttir

Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, fyrir 95. fund nefndarinnar sem fór fram 20. maí, kom fram að allir nefndarmenn höfðu verið sammála um að lækka þurfti stýrivexti Seðlabankans.

Fram komu áhyggjur af því að lægri vextir hefði ekki skilað sér nægjanlega vel til fyrirtækja og að bankakerfið ætti erfitt með að fylgja frekari lækkunum vegna minnkun á vaxtamun þeirra. 

Einn nefndarmaður taldi það æskilegt að Seðlabankinn myndi bregðast við skyldi gengi krónunnar lækka umtalsvert meira í kjölfar vaxtalækkunar.

Enn fremur ræddi nefndin um framkvæmd Seðlabankans nú á dögunum, þegar þau gerðu tilboð í ríkisskuldabréf fyrir um 400 milljónir króna.

Nefndarmenn lögðu áherslu á að markmiðið með kaupunum væri að tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið, þannig að lækkun vaxta hjá bankanum miðlaðist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja. Fram kom að útlit væri fyrir að aukin lánsfjárþörf ríkissjóðs gæti, að öðru óbreyttu, dregið úr lausafé í umferð og þrýst upp ávöxtunarkröfu á markaði.

Fram kom á fundinum að engin skýr leitni hefði verið merkjanleg í þróun ávöxtunarkröfunnar í kjölfar innkomu bankans. Nefndarmenn voru sammála um að haga þyrfti framkvæmd kaupanna á næstu misserum í samræmi við efnahagsþróun, útgáfu ríkissjóðs og áhrif hennar á markaðinn svo að tryggt yrði að markmiði kaupanna yrði náð.

Í peningastefnunefnd sitja eftirtaldir: Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Gunnar Jakobsson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoega.