Framboð af lóðum í hefðbundnum lóðaúthlutunum til einstaklinga hefur verið mjög takmarkað á höfuðborgarsvæðinu og þá ekki síst í Reykjavík. Þetta sýndi sig greinilega við úthlutun 30 lóða við Lambasel í Reykjavík í apríl þar sem 5.658 umsóknir bárust. Síðan virðast pólitískir fulltrúar borgarbúa vera að vakna upp við að úrlausna er þörf og ekki seinna vænna þar sem kosningar eru framundan á næsta ári.

Sjálfstæðismenn hafa kynnt mikilfenglegar hugmyndir um uppbyggingu í eyjunum norðan við borgina og með ströndinni. Það telja þeir raunhæfari kost en að þenja byggðina út til falla. R-listinn hefur gagnrýnt þetta sem dýra lausn, en kynnt uppbyggingu Úlfarsfellslands, Grafarholts, Norðlingaholts og þéttingu byggðar í og við miðborgina. Þá hefur úr þeim ranni einnig verið varpað fram hugmyndum um uppbyggingu í Vatnsmýri með vegtengingu til suðurs yfir Skerjafjörð og jarðgöng suður fyrir Straumsvík.

Þó margar þessara hugmynda séu athyglisverðar þá einkennast þær líka af talsvert mikilli draumsýn. Sú draumsýn er oft þvert á veruleikann eins og í samgöngumálum. Þar má benda á framkvæmdir sem flestir telja nauðsynlegar eins og mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut sem hafa verið slegnar út af borðinu fyrir mun lakari bráðabirgðalausn. Samt eru mislæg gatnamót aðeins brotabrot af kostnaði sem ætla má að jarðgöng til Straumsvíkur myndu kosta. Sundabraut er síðan annað mál sem dregist hefur úr hömlu að taka ákvarðanir um auk þess sem landsbyggðarpólitík hefur knúið í gegn aðra forgangsröðun.

Fátt um einbýlishúsalóðir

Í dag er raunveruleikinn í lóðamálum í Höfuðborginni sá að fyrir utan einbýlishúsalóðirnar sem úthlutað hefur verið við Lambasel hafa engar einbýlishúsalóðir legið á lausu til umsóknar í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar eru 7 lóðir í Blesugróf sem ekki hefur verið tekin afstaða til hvenær verði auglýstar eða hvað form verði haft á þeirri úthlutun. Úlfarsfellsland er á döfinni að úthluta í haust, en ekki hefur verið tekin afstaða til hvaða form verður á þeirri úthlutun og hvort einstaklingar hafi þar möguleika. Þar á að rísa 20 þúsund manna byggð.

Samkvæmt upplýsingum framkvæmdarsviðs Reykjavíkurborgar sem Viðskiptablaðið greindi frá fyrir nokkru, var úthlutað 474 lóðum undir íbúðarhús í Reykjavík árið 2004. Stærsti hluti þessara úthlutana var eftir útboð. Þar af voru 427 í nýju hverfi í Norðlingaholti, milli Elliðavatns og Rauðavatns. Af þessum 427 lóðaúthlutunum í Norðlingaholti voru 98 í raðhúsum, parhúsum eða keðjuhúsum. Þá voru 316 vegna íbúða í fjölbýli, en einungis 13 úthlutanir vegna einbýlishúsa. Í öðrum hverfum var um að ræða 1 lóðaúthlutun í Kjalarneshreppi vegna einbýlishúss og 46 vegna íbúða í fjölbýlishúsum.

7 lóðir til einstaklinga

Athygli vekur að nær allar úthlutanir eru til byggingarfélaga, annarra fyrirtækja, banka og stofnana. Þar má nefna að Landsbankinn er skrifaður fyrir 11 lóðum. Þar af 6 einbýlishúsalóðum, 8 fjölíbúða-raðhúsalóðum og 2 parhúsum, auk lóðar fyrir 9 íbúða fjölbýlishús. Fleiri bankastofnanir fengu líka úthlutað og má þar nefna Sparisjóð Hafnarfjarðar sem fékk 5 lóðir í margra íbúða raðhúsum og tvíbýlishúsum og Frjálsi fjárfestingabankinn fékk úthlutað einni einbýlishúsalóð og einni fjölbýlishúsalóð. Einungis 7 einstaklingar fengu úthlutað lóðum í fyrra en þær voru allar vegna einbýlishúsa.

Útboðsstefna borgaryfirvalda við úthlutun lóða hefur sætt mikilli gagnrýni almennings. Nú hafa verktakar líka gagnrýnt þessa stefnu og telja hana hafa leitt til gríðarlegra lóðahækkana og vegna þess hafi hægt hafi á uppbyggingu í Reykjavík. Á sama tíma hafi byggð verið að rjúka upp t.d. í Hafnarfirði þar sem að mestu hefur verið beitt hefðbundinni úthlutun með miklu lægra lóðaverði.