Danir hefja í ár umfangsmikið umbótaferli á starfsnámskerfi sínu til að gera danskt vinnuafl samkeppnishæfara í alþjóðlegu vinnuumhverfi. Henning Gade, forstöðumaður hjá DA, samtökum atvinnulífsins í Danmörku, mun tala á menntadegi atvinnulífsins sem verður haldinn hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica fyrir helgi.

Starfsnámi Dana er öðruvísi háttað en á Íslandi en þar ríkir svokallað tvískipt menntakerfi. Þar geta nemendur í iðngreinum valið um annaðhvort starfsnám hjá fyrirtækjum eða hefðbundið nám í iðnskóla. Að sögn Gade eru vissir kostir fólgnir í þessu kerfi sem einnig er við lýði í löndum eins og Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Atvinnuleysi ungs fólks er almennt lægra í löndum sem búa við slíkt kerfi og það hefur almennt reynst vel í að mennta gott starfsfólk í Danmörku. Engu að síður eru ýmsir vankantar á því og þess vegna hafa dönsk yfirvöld ráðist í umfangsmiklar umbætur á því á síðustu árum.

Iðnmenntuðum fer fækkandi

„Kjarninn í vinnuafli þeirra fyrirtækja sem eru aðilar að DA er iðnmenntað fólk, eða um 40%. Þess vegna skiptir það okkur miklu máli að halda vel utan um það hvernig staðið er að iðnmenntun í Danmörku. Það sem við erum að sjá fram á núna er að aðeins um 18% af ungu fólki í Danmörku eru að hefja iðnnám um þessar mundir. Til þess að geta staðið að endurnýjun iðnmenntaðs vinnuafls þurfum við að ná þessu hlutfalli upp í að minnsta kosti 30% fyrir árið 2025. Of mikill fjöldi ungs fólks fer í akademískt nám sem það ræður ekki við og fellur því úr námi á endanum,“ segir Gade.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .