Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu SodaStream International, sem framleiðir tæki og tól undir sama nafni, hækkuðu um 14% á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í dag vegna orðróms um að kaffihúsakeðjan Starbucks væri að bera víurnar í fyrirtækið. Til tals hefur komið að Starbucks ætli að kaupa 10% hlut í SodaStream.

Fram kemur í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar að gengishækkunin hafi eytt út 7,6% gengislækkun frá áramótum.

Bloomberg bendir á að gosdrykkjaframleiðendur hafi verið að færa út kvíarnar upp á síðkastið með kaupum á fyrirtækjum á borð við SodaStream. Coca-Cola hafi sem dæmi keypt fyrir skömmu 10% hlut í Keurig Green Mountain. Þá segir Bloomberg að rætt hafi verið um að Pepsi myndi feta í sömu spor og hugsanlega bjóða í SodaStream.