Sameiningunni er lokið en hún tók miklu lengri tíma og var kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar. Sýn tilkynnti á miðvikudaginn að afskrifa ætti 2,5 milljarða viðskiptavild sem kom til vegna kaupa félagsins á fjölmiðlum og fjarskiptahluta 365 miðla árið 2017. „Síðasta ár markast af því að verið er að ljúka ýmsum hlutum sem kostnaður hlaust af. Núna erum við komin með miklu sterkara fyrirtæki til að sækja fram,“ segir Heiðar. Starfsmönnum Sýnar fækkaði um 60 á síðasta ári, skipt var um fjóra af fimm í framkvæmdastjórn félagsins og Heiðar tók við sem forstjóri af Stefáni Sigurðssyni.  Afskriftin sem slík hafi þó engin áhrif á rekstur félagsins og greinendur hafi verið fyrir löngu búnir að átta sig á stöðunni.

Óraunhæfar áætlanir

Þegar gengið var frá kaupum á eignum 365 1. desember 2017 var stefnt að því að samlegðaráhrif af sameiningunni myndu skila sér á 12 til 18 mánuðum og næmu 1,75 milljörðum króna á ári. Þau áform hafa ekki staðist. „Það voru klárlega óraunhæfar áætlanir en við erum að vinna með fyrirtækið eins og það er. Við höfum fulla trú á því að það verði vel arðbært í framtíðinni,“ segir Heiðar. Hann lét hafa eftir sér í ágúst að sparnaðurinn af uppsögnunum og endurskipulagningu myndi bæta afkomu félagsins um 50 milljónir á mánuði eða 600 milljónir á ársgrundvelli.

Kaupverðið of hátt?

Sýn greiddi 8,3 milljarða króna fyrir eignir 365 miðla árið 2017. 2,1 milljarður var greiddur með hlutafé í Sýn, þá greiddi félagið upp lán seljanda upp á 4,6 milljarða og 1,6 milljarðar króna voru greiddar í reiðufé.

Markaðsvirði Sýnar hefur lækkað um helming frá mars 2018 og er í dag 10,5 milljarðar króna eða 2,2 milljörðum hærra en kaupverð eigna 365 miðla var árið 2017. Spurður hvort kaupverðið fyrir eignir 365 miðla hafi verið of hátt á sínum tíma segir Heiðar: „Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Það er alveg klárt að áætlanir stóðust ekki en það á eftir að koma í ljós hvort of mikið hafi verið greitt fyrir eignirnar.“

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .