Það hefur legið fyrir frá fyrsta degi að lán Norðurlandanna fjögurra til Íslendinga færu í að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, að sögn Jóns Sigurðssonar, aðalsamningamanns Íslendinga gagnvart Norðurlöndunum.

Hann segir að Svíar verði sjálfir að útskýra rökin fyrir lánafyrirgreiðslunum sem fram komi í greinargerð sænskra stjórnvalda um lánin.

Í greinargerðinni segir meðal annars að norrænu lánveitendurnir setji þau skilyrði fyrir lánum sínum að Hollendingar og Bretar láni Íslandi vegna skuldbindinga sem skapist hafi af innstæðutryggingum og er þar  átt við vegna útibúa Landsbankans í Bretlandi og í Hollandi.

Því er síðan bætt við að norrænu lánveitendurnir vilji með þessu koma í veg fyrir að fjármunir frá norrænu löndunum renni til þessara landa, þ.e.a.s til Bretlands og Hollands.

Jón minnir á að eina skilyrðið fyrir útgreiðslu norrænu þjóðanna til Íslendinga sé að fyrsta endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun AGS og Íslendinga hafi farið fram og að önnur greiðsla þeirra hafi verið innt af hendi.