Hlutabréf á Asíumörkuðum lækkuðu almennt í nótt, en markaðsaðilar virðast varkárir fyrir ársfund bandaríska seðlabankans sem haldinn verður í Jackson Hole og byrjar í dag.

Virðast margir bíða eftir því að heyra hvaða stefnumörkun mun koma fram í ræðu stjórnarformanns bankans, Janet Yellen sem haldin verður á morgun, föstudag.

Of miklar væntingar

Aðrir segja að það séu of miklar væntingar gerðar til stefnumörkunar bankans.

„Ég held að fólk sé að lesa allt of mikið í ársfundinn,“ segir Kay Van-Petersen, greinandi Asíumarkaði hjá Saxo Capital Markets. „Það skortir ákveðna stefnumörkun á mörkuðunum og ég held að fólk sé nánast að búa til eigin niðurstöður, því það vill fá stefnumörkun. En út frá okkar sjónarmiði þá er ólíklegt að hún muni segjast fara í eina átt frekar en aðra, hún mun halda möguleikunum opnum.“

Lækkun á hrávörumarkaði

Lækkun var á hrávörumörkuðum sem dró vísitölur Ástralíu og Malasíu niður, sú síðarnefnda, FTSE Bursa Malaysia lækkaði um 0,17%. Í Hong Kong lækkuðu hlutabréf í stórum olíufyrirtækjum eftir vonbrigði með hagnað þeirra. Cnooc Ltd. lækkaði um 1,14% í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti um 7,7 milljarða júana tap.

PetroChina Company Ltd. missti 1,33% af verðgildi sínu í kjölfar þess að hagnaður þess minnkaði um 98%, niður í 531 milljón júan á fyrri helmingi ársins.

Helstu vísitölur á svæðinu þróuðust þannig:

  • Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 0,25%
  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu lækkaði um 0,04%
  • Taiwan Weighted vísitalan hækkaði um 1,09%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,04%
  • Dow Jones Shanghai vísitalan í Kína lækkaði um 0,67%
  • FTSE China A50 vísitalan lækkaði um 0,37%
  • S&P/ASX 200 vísitalan lækkaði um 0,36%
  • Dow Jones New Zealand vísitalan hækkaði um 0,24%