*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 6. desember 2007 11:51

Almennar launahækkanir verðbólgufóður

Ritstjórn

Stjórn Samtaka atvinnulífsins fjallaði á fundi sínum þann 4. desember um stöðuna í kjarasamningum og efnahagsmálum. Samþykkti stjórnin ályktun þar sem megináherslur SA vegna yfirstandandi kjarasamninga eru ítrekaðar, að ekki sé tilefni til almennra launahækkana í ljósi undangenginnar launa- og kaupmáttarþróunar. Svigrúm til kostnaðarhækkana eigi að nýta til hækkunar lægstu launa og til þess að færa lægstu kauptaxta nær greiddum launum, auk launaþróunartryggingar til þeirra sem lítið eða ekkert hafa notið launaskriðs.

Almennur skortur á starfsfólki

Almennar launahækkanir við núverandi skilyrði yrðu einungis verðbólgufóður. Mikil spurn hefur verið eftir starfsfólki á undanförnum misserum og hefur störfum fjölgað um a.m.k. 10% á tveimur árum. Stór hluti þeirra hefur verið mannaður af erlendu starfsfólki. Hvarvetna hafa fyrirtæki kvartað undan mikilli starfsmannaveltu, erfiðleikum við mönnun og þrýstingi á launahækkanir. Skortur á starfsfólki er almennt vandamál því vandinn er sá sami hjá opinberum aðilum.

Mikilvægt að ná verðbólgu niður

Að undanförnu hafa verið settar fram kröfur um miklar samningsbundnar launahækkanir frá ýmsum hópum sem ekki byggja á neinu faglegu mati á þróun á vinnumarkaði eða stöðu atvinnulífsins. Það leysir engin vandamál að nálgast kjarasamninga eins og einhvers konar kröfukeppni milli einstakra hópa. Það blasir t.d. við að 4% almenn hækkun bæði til starfsfólks fyrirtækja og opinberra starfsmanna (sem ýmsum þykja án efa smáaurar) myndi ekki hafa annað í för með sér en samsvarandi verðbólgu. Það er því bæði hagsmunamál fyrirtækja og starfsfólks að ná verðbólgunni sem allra mest niður. Þannig er grunnurinn að lífskjörum starfsfólks og afkomu fyrirtækja best treystur.

Stuðningur við stofnun áfallatryggingasjóðs

Í tilkynningu vegna fundarins segir að stjórn SA lýsti stuðningi sínum við áform um stofnun sérstaks áfallatryggingasjóðs til þess að taka betur á vanda þeirra sem langtímum saman eru frá vinnu vegna veikinda eða slysa. Núverandi réttindakerfi hefur í alltof mörgum tilvikum reynst einstefna út af vinnumarkaði og hefur örorkulífeyrisþegum fjölgað um nálægt 1.200 árlega undanfarin ár. Málefni áfallatrygginga hafa verið í nokkurri biðstöðu í viðræðum milli SA og Alþýðusambandsins en nauðsynlegt er að taka aftur upp þráðinn og láta reyna á það hvort ekki næst saman um málið. Áfallatryggingarnar eru mikið hagsmunamál fyrirtækjanna og starfsfólks þeirra og mikið leggjandi á sig fyrir alla aðila að ná árangri.

Aðkoma stjórnvalda

Stjórnvöld munu væntanlega tengjast viðræðum um stefnumarkandi kjarasamninga eins og oftast áður. Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á það að opinberir aðilar beiti aðhaldi í útgjöldum og sér í lagi að kjarasamningar við opinbera starfsmenn sprengi ekki þá ramma sem almenni vinnumarkaðurinn markar. Áherslumál verkalýðshreyfingarinnar og SA gagnvart stjórnvöldum eru mismunandi, sem kemur ekki á óvart, og eru samtökin algerlega andvíg þeirri tillögu að taka upp margþrepa skattkerfi eins og Starfsgreinasambandið hefur lagt til.

Bætt hagstjórn nauðsynleg

Stjórn Samtaka atvinnulífsins ályktaði sérstaklega um nauðsyn þess að bæta umgjörð hagstjórnar og breyta verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Telur stjórnin að ekki sé svigrúm til kjarasamninga sem hafa kostnaðarhækkanir í för með sér fyrir atvinnulífið nema tekið sé á þessum málum. Það er óviðunandi fyrir atvinnulífið að mat á stöðu efnahagslífs og spár um framvindu séu eins óáreiðanlegar og raun ber vitni. Það er einnig óviðunandi að verðbólgumarkmið Seðlabankans skuli byggja á aðferð sem metur verðbreytingar á eigin íbúðarhúsnæði með ýktasta hætti sem fyrirfinnst, á meðan t.d. Seðlabanki Evrópu styðst við vísitölu þar sem þessar verðbreytingar húsnæðis eru alls ekki meðtaldar. Því liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins muni láta reyna á umbætur á þessum sviðum við gerð komandi kjarasamninga, segir í tilkynningunni.