*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 12. mars 2010 15:34

ALP bílaleigan kaupir 160 Volkswagen Golf og Polo

Ritstjórn

Gengið hefur verið frá samningi milli Heklu og bílaleigunnar ALP, umboðsaðila Avis og Budget á Íslandi, um kaup bílaleigunnar á 160 nýjum Volkswagen Golf og Volkswagen Polo.  Hekla mun afhenda bílana á vormánuðum. „Við erum mjög ánægð með þennan samning enda eru Volkswagen bílarnir þekktir fyrir áreiðanleika og gæði,“ segir Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri ALP í tilkynningu.

Björn segir útlit fyrir að mikil eftirspurn verði eftir bílaleigubílum í sumar og því sé mikilvægt að velja samstarfsaðila með góða bíla og hátt þjónustustig.  „Við leggjum áherslu á að bjóða nýlega og góða bíla en það er liður í að veita viðskiptavinum okkar afburða þjónustu. Því er það okkur mikil ánægja að gera þennan samning við Heklu. Miðað við aðstæður í gengismálum eru verðin einnig mjög hagstæð,“ segir Björn.

Sverrir Viðar Hauksson framkvæmdastjóri Heklu segir samninginn við ALP til vitnis um gott samstarf Heklu og ALP á síðustu árum. „Volkswagen eru annálaðir fyrir gæði og við hjá Heklu höfum kappkostað að bjóða upp á hátt og gott þjónustustig.  Þess vegna má segja að þessi samningur byggi á trausti og góðri reynslu,“ segir Sverrir Viðar Hauksson.