Jón Hjaltalín Magnússon forstjóri Arctus, sem hyggst reisa áltæknigarð í Þorlákshöfn, segir engan vafa leika á um einkarétt Arctus á viðræðum við sveitarfélagið Ölfus um uppbyggingu áliðnaðar í sveitarfélaginu. Þessi einkaréttur hefur á síðustu dögum fallið í skuggann af nýfengnum áhuga álfyrirtækisins Alcan á því að byggja álver í Þorlákshöfn auk þess sem Norsk Hydro hefur lýst yfir áhuga á að reisa álver á svæðinu.

Í samtali við Viðskiptablaðið í gær sagði Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri Ölfuss að hann liti ekki svo á að þessi verkefni væru öll í samkeppni við hvert annað heldur gæti áltæknigarðurinn auk annars álvers rúmast innan sveitarfélagsins. Samningur Arctus og Ölfuss tryggir hinsvegar einkarétt Arctus á viðræðum við Ölfus og vilyrði á lóð vestan við bæinn. Samningurinn er í gildi allt til vors á næsta ári. "Samningurinn tryggir okkur einkarétt á viðræðum við Ölfus um uppbyggingu áltengdrar starfsemi en samkvæmt samningum skuldbindur sveitarfélagið sig til þess að tala ekki við aðra um slíka uppbyggingu," segir Jón Hjaltalín. Hann segist ekki líta svo á að Ölfus sé í viðræðum við Alcan eða Norsk Hydro þó að þessi fyrirtæki sæki Ölfusinga heim. "Frá mínum bæjardyrum séð er þessi samningur ennþá í fullu gildi,"segir Jón.

Jón Hjaltalín segir að framkvæmdir við áltæknigarðinn muni hefjast árið 2011 og standa yfir í tíu ár. Á heildina litið mun fjárfestingin við uppbyggingu garðsins nema 80 milljörðum króna. Jón vill ekki gefa upp hvaða fyrirtæki eða fjármagn standi að baki fyrirhugaðri uppbyggingu áltæknigarðsins að svo stöddu. "Ég get greint frá því að við erum í samstarfi við kínverska verktakafyrirtækið CITIC en hin fyrirtækin sem öll eru alþjóðleg stórfyrirtæki á sviði áliðnaðar munu ekki stíga fram fyrr en búið er að ganga frá því að áltæknigarðurinn verði að veruleika," segir Jón. Hann staðfestir að fulltrúar þessara fyrirtækja hafi komið hingað til lands og átt fundi við bæði Ölfus og orkufyrirtæki hér á landi. "Ég get staðfest að um þrjú öflug fyrirtæki er að ræða en það verður tilkynnt fljótlega hver þau eru," segir hann.

Mikil óvissa hefur ríkt um hvers konar starfsemi mun fara fram í áltæknigarðinum og því hefur verið fleygt fram að þarna sé einfaldlega á ferðinni álver í dulargervi áltæknigarðs. "Við höfum heyrt það frá ákveðnum stjórnmálaflokki að hér sé á ferðinni álver í dulargervi. Svo er hinsvegar ekki. Okkar markmið er að búa til ál fyrir fullvinnslufyrirtæki til að vinna úr. Hér áður fyrr fluttum við út óunna síld í tunnum og í raun má segja að það sama sé upp á teningnum nú, en í stað síldar er ál í tunnunum. Þessu viljum við breyta og fullvinna álið hér á landi áður en við flytjum það út. Þetta mun skapa fjöldamörg tæknistörf og rannsóknarstörf og gefa okkur tækifæri til að byggja upp þekkingarmiðstöð á sviði málmtækni," segir Jón.

Jón útskýrir jafnframt í Viðskiptablaðinu í dag hvers konar starfsemi mun fara fram í fyrirhuguðum áltæknigarði. "Þar fer fram margskonar starfsemi sem tengist frumvinnslu, endurbræðslu og fullvinnslu á áli," segir Jón. Hann upplýsir auk þess að þar verður allt að 270 þúsund tonna álframleiðsla og endurbræðsla innfluttra álhleifa upp að allt að 360 þúsund tonnum á ári. Auk þess verður álið úr vinnslunni og bræðslunni fullunnið fyrir Evrópu- og Ameríkumarkað. "Í fullvinnslunni verða framleiddar álþynnur, álklæðningar, hurða- og gluggarammar og rafmagnsstrengir, felgur og aðrir íhlutir í bíla og flugvélar. Þá verður í áltæknigarðinum einnig aðstaða fyrir ýmiskonar þjónustufyrirtæki sem starfa á sviði álvinnslu og loks verður starfrækt í tengslum við garðinn þekkingarsetur og háskólanám tengt máltækni," segir hann.