Álverð hefur hækkað um 65% á síðustu tólf mánuðum. Í september í fyrra kostaði tonn af áli 1.786 dollara en nú er það komið í 2.950 dollara. Innan dags á mánudaginn skreið verðið í 3.000 dollara um tíma.

Verð á áli hefur ekki verið hærra síðan um mitt ár 2008 en þá kostaði tonnið ríflega 3.000 dollara. Þegar alheimsfjármálakrísan skall á um haustið 2008 hrapaði verðið og í loks árs var það komið niður í um 1.300 dollara.

Valdarán þrýsti verðinu upp

Á síðustu dögum hefur álverð hækkað um ríflega 9%. Ástæðuna má rekja til valdaráns hersins í Gíneu. Sunnudaginn 5. september var Alpha Conde , forseti landsins, fangelsaður, ríkisstjórn landsins leyst upp og hershöfðinginn Mamady Doumbouya hrifsaði til sín völdin.

Í Gíneu eru einar stærstu báxítnámur í veröldinni og koma um 25% af báxíti heimsins frá þessu landi í Vestur- Afríku. Báxít er málmgrýti sem inniheldur súrál, sem er hreinsað og notað við framleiðslu á áli. Kínverjar og Rússar kaupa mikið af sínu báxíti af Gíneu en Kínverjar eru langstærstu framleiðendur áls í heiminum. Árið 2020 nam álframleiðslan í Kína um 37 milljónum tonna en þar á eftir komu Indland og Rússland með um 3,6 milljónir tonna hvort land. Á Íslandi voru framleidd 840 þúsund tonn af áli á síðasta ári.

Heimsfaraldur og grænar áherslur

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á framboð á áli. Í greiningu Jyske bank frá því í sumar segir að aðgerðarpakkar stjórnvalda, sem nýst hafa fyrirtækjum og einstaklingum, hafi haft töluverð áhrif enda virkað hvetjandi á hagkerfið og ýtt undir neyslu. Þá hafi neyslan einnig breyst vegna ferðatakmarkana og útgöngubanna .

Annað sem nefnt er í greiningu Jyske bank er að aukin fjárfesting í umhverfisvænni tækni hafi ýtt undir eftirspurn eftir áli. Ál sé sem dæmi notað í framleiðslu á rafmagnsbílum og í túrbínur vindmylla.

Síðast en ekki síst er það Kína, sem framleiðir um 58% af öllu áli í heiminum. Mikil eftirspurn hefur verið eftir áli í Kína, sem hefur haft áhrif á útflutning. Í greiningunni kemur fram að í Kína muni eftirspurnin enn aukast á næstu árum meðal annars vegna aukinnar áherslu á græna tækni. Þá eru leiddar að því líkur að framleiðsla áls í Kína kunni að dragast saman á einhverjum tímapunkti til þess að draga úr mengun en um 80% álvera í landinu eru keyrð áfram með orku frá kolaorkuverum með tilheyrandi kolefnislosun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .