Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,1% í 1,7 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Eimskip og Hagar leiddu lækkanir á aðalmarkaðnum en hlutabréf félaganna tveggja féllu um meira en 2%.

Auk þeirra lækkuðu hlutabréf Arion banka, Nova og Marels um meira en 1%. Hlutabréfaverð Marels féll um 1,8% í 80 milljóna króna viðskiptum og stendur nú í 540 krónum.

Alvotech, sem er skráð á íslenska First North-markaðinn, lækkaði hins vegar mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Alvotech féll um 5,4% í 80 milljóna króna viðskiptum og stendur nú í 882 krónum á hlut. Gengi félagsins hækkaði engu að síður um 8,4% í vikunni.

Hlutabréfaverð líftæknifyrirtækisins í kauphöllinni í New York hefur fallið um 2,8% það sem af er degi.

Alvotech tilkynnti í gærkvöldi að forstjórinn Mark Levick hefði óskað eftir að láta af störfum. Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, mun taka við stöðu forstjóra þann 1. janúar næstkomandi.

Við lokun íslensku Kauphallarinnar í dag var tilkynnt að Nasdaq Iceland hefði samþykkt að beiðni Alvotech um töku hlutabréfa félagsins á íslenska aðalmarkaðnum.