Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech Holdings S.A. („Alvotech"), og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma („Fuji") tilkynntu í dag að þau hefðu gert samkomulag um að auka við samstarf sitt í þróun og markaðssetningu líftæknihliðstæðulyfja í Japan.

Samkvæmt samningnum hlýtur Fuji rétt til sölu- og markaðssetningu á ótilgreindu líftæknihliðstæðulyfi, sem nú er á fyrstu stigum þróunar. Alvotech fær greiðslu við undirritun og síðan áfangagreiðslur  eftir framvindu lyfjaþróunar, auk hlutdeildar í sölu á markaði. Með nýja samkomulaginu er nýju líftæknihliðstæðulyfi bætt við samstarfið milli Alvotech og Fuji. Fyrirtækin tilkynntu fyrst um samstarf sitt árið 2018, og verða nú líftæknihliðstæðulyfin sem fyrirtækin eiga í samstarfi um sex talsins.

Japanski markaðurinn er sá þriðji stærsti á heimsvísu þegar horft er til sölu lyfja, samkvæmt markaðsrannsóknum IQVIA.

Sjá einnig: Vill veita Íslendingum gott aðgengi

Þann 7. desember 2021 tilkynntu Alvotech og Oaktree Acquisition Corp. II, sérhæft yfirtökufélag sem styrkt var af hlutdeildarfélagi Oaktree Capital Management, L.P., að fyrirtækin hefðu gert endanlegan samning um samruna fyrirtækjanna. Þegar samruninn er genginn í gegn er áætlað að viðskipti með verðbréf sameinaða fyrirtækisins verði á NASDAQ undir tákninu „ALVO".

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech:

„Alþjóðleg nálgun okkar á markaði fyrir líftæknihliðstæðulyf er undirstaðan í uppbyggingu Alvotech. Við teljum að japanski markaðurinn muni setja líftæknihliðstæðulyf í forgang til langs tíma, þar sem þau stuðla að jafnvægi í heilbrigðisrekstri á sama tíma og þau bæta aðgengi.“