Bandaríska verslunarkeðjan American Apparel tilkynnti í gær áætlun um að fækka verslunum og starfsmönnum. Auk þess var greint frá því að fyrirtækið stæði frammi fyrir yfir 20 lögsóknum frá fyrrverandi framkvæmadstjóranum Dov Charney.

American Apparel mun hagræða um 30 milljónir dollara næstu 18 mánuði. Forsvarsmenn verslunarkeðjunnar, sem er með höfuðstöðvar í Los Angeles, hafa ekki tilkynnt um hve mörgum af 239 búðum fyrirtækisins verði lokað, né hve mörgum af 10 þúsund starfsmönnum þess verði sagt upp.

Paula Schneider, nýráðinn framkvæmdastjóri segir fyrirtækið staðráðið í því að snúa rekstrinum við og fara að skila jákvæðum rekstri og að viðhalda eins mörgum störfum og möguleiki er á. Fyrirtækið mun loka verslunum á svæðum þar sem sala er léleg en bæta við nýjum verslunum á vinsælum mörkuðum. Fyrirtækið er einnig að reyna að breyta ímynd sinni og mun því draga úr þeim kynferðislegum ímyndum í auglýsingum þess sem gerðu það frægt á sínum tíma. En Dov Charney var einmitt rekinn í fyrra vegna meðal annars kynferðislegrar áreitni.