Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra er látinn. Hann lést á Landspítalanum mánudaginn 18. maí. Banamein hans var hjartaáfall. Halldór var fæddur þann 8. september árið 1947 og var því á 68. aldursári.

Halldór lauk Samvinnuskólaprófi árið 1965 og löggildingarprófi í endurskoðun árið 1970. Hann stundaði framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn á árunum 1971–1973.

Halldór var lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands 1973–1975. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi árið 1974 og sat þá eitt kjörtímabil. Tók sæti á Alþingi að nýju eftir kosningar 1979 og sat þar fram til 2006, lengst af sem þingmaður Austurlands.

Halldór gegndi ráðherraembætti samfellt í rúm 19 ár. Hann gegndi embætti sjávarútvegsráðherra frá 1983-1988, sjávarútvegs-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, sjávarútvegsráðherra 1989-1991. Árið 1995 var Halldór skipaður utanríkisráðherra og gegndi embættinu til 2004. Þá var hann skipaður forsætisráðherra og lét af embætti 15. júní 2006. Að auki gegndi hann öðrum ráðherraembættum um skamma hríð.

Halldór var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 1980 og var formaður hans árið 1994. Hann lét af formennsku í ágúst 2006. Árið 2007 tók Halldór við starfi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

Halldór var kvæntur Sigurjónu Sigurðardóttur og eignuðust þau þrjár dætur.