Van Lanschot bankinn telur andvirði matvælaarms hollenska fyrirtækisins Stork vera um 250 milljónir evra (21,5 milljarðar króna), en bankinn birti verðmat á Stork Food í kjölfar frétta um að Marel íhugaði yfirtöku á fyrirtækinu, segir í frétt Dow Jones.

Viðskiptablaðið sagði frá hugsanlegum samruna Marels og Stork Food þann 22. september og Fréttablaðið greinir frá málinu í dag.

Marel á 8% hlut í Stork-samstæðunni, en vogunarsjóðirnir Centaurus og Paulson hafa þrýst á að fyrirtækinu verði skipt upp, segir í fréttinni.

Stjórnarformaður Marels, Árni Oddur Þórðarson, segir í viðtali við hollenska fjölmiðla að fyrirtækið hafi haft samband við Stork um yfirtöku og að Marel sé fjárhagslega reiðubúið fyrir yfirtöku, segir í fréttinni.