Anita Brá Ingvadóttir er nýkjörinn formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. Stúdentafélagið (SFHR) er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík og eru allir nemendur háskólans meðlimir í félaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Í tilkynningunni kemur fram að Stúdentafélagið muni beita sér áfram fyrir því á komandi ári að gæta hagsmuna nemenda innan og utan skólans, bæta aðstöðu sem þeir hafa til náms og félagsstarfs auk þess sem stofnað verður málfundafélag, að sögn Anítu.

Einnig kemur eftirfarandi fram í tilkynningunni: „SFHR er ásamt öðrum stúdentafélögum úr háskólum landsins stofnaðili nýs Landssambands íslenskra stúdenta (LÍS) en sambandið er samstarfsvettvangur allra háskólanema í baráttu fyrir hagsmunamálum háskólafólks í íslensku samfélagi. Stofnun hins nýja landssambands þýðir að nú standa allir háskólanemar landsins saman í helstu baráttumálum stúdenta."

Stjórn SFHR er skipuð þremur til fimm aðilum sem sitja eitt skólaár í senn og fara kosningar fram á vorönn. Auk Anitu Brá Ingvadóttur eru í stjórn félagsins nýkjörin þau Tómas Örn Sigfússon, Einar Smárason, Sara Margrét Harðardóttir og Reynir Jónasson. Anita Brá er á öðru ári í sálfræði við viðskiptadeild HR.