AP almannatengsl ehf. hafa gert samstarfssamning við alþjóðlega fyrirtækið Edelman sem er eitt stærsta sjálfstæða almannatengslafyrirtæki í heimi með um 1.900 starfsmenn í 42 löndum. Edelman er rótgróið en jafnframt framsækið fyrirtæki og á meðal viðskiptavina þess eru mörg stærstu fyrirtæki heims. Með samstarfinu eru AP almannatengsl orðin hluti af neti almannatengslaskrifstofa um allan heim og geta boðið viðskiptavinum fjölbreytta þjónustu á alþjóðlegum vettvangi segir í tilkynningu félagsins.

Víðtækur gagnagrunnur Edelmans á sviði almannatengsla og markaðsrannsókna er aðgengilegur fyrirtækinu.

Edelman, sem stofnað var af Dan Edelman í Bandaríkjunum fyrir 53 árum, er meðal brautryðjenda á sviði almannatengsla. Hjá fyrirtækinu er unnið eftir hugmyndafræði samhæfðra markaðssamskipta þar sem notast er við tæki og tól almannatengsla til að ná hámarksárangri. Það er trú Edelman að markviss notkun almannatengsla færi fyrirtækjum og stofnunum öðru fremur þann slagkraft og gagnsæi sem þarf til að byggja upp áreiðanleika og traust. Edelman hefur unnið til fjölda verðlauna á sínu sviði.

Edelman býður þjónustu á öllum sviðum almannatengsla en hjá fyrirtækinu er m.a. unnið að ímynd fyrirtækja og vörumerkja, fjárfestatengslum, fjölmiðlatengslum, krísustjórnun, viðburðastjórnun, hönnun og útgáfu, samfélagslegri ábyrgð og innri samskiptum. Meðal viðskiptavina Edelman má nefna Microsoft, Unilever, Johnson&Johnson, Boeing, PepsiCo., Samsung, DuPont og UPS auk fjölda leiðandi fyrirtækja á fjármálamarkaði, í ferðaþjónustu, heilbrigðistækni, matvælaiðnaði, íþróttum, stjórnsýslu, markaðsmálum og skemmtanaiðnaði.