Apple mun í þessum mánuði bjóða notendum að selja eldri útgáfu af iPhone og nota greiðsluna upp í kaup á nýjustu útgáfunni, iPhone 5. Skiptikerfið verður framkvæmt í samstarfi við fyrirtækið Brightstar, að því er greint er frá í frétt Bloomberg um málið.

Tim Cook, forstjóri Apple, vill með skiptimarkaðinum lokka notendur snjallsímans til þess að uppfæra í nýjustu gerðina, sem myndi auka sölu félagsins. Fram til þessa hefur Apple lítið hugað að möguleikum skiptimarkaðar, þar sem viðskiptavinir geta afhent eldri síma upp í nýja. Talið er að minnkandi sala á síðustu ársfjórðungum hafi leitt til þeirrar ákvörðunar að setja á fót skiptimarkað. Gengi hlutabréfa í Apple hefur lækkað um 38% frá því að þau stóðu í hæstu hæðum í september síðastliðnum.